jarðskjálfti í vikivaki


Grettisgata-Baronstigur-1

 

hvað meinarðu?

 

afgreiðslumaðurinn er skýr,

ég meina það sem ég meina, pulsurnar eru ekki í pottinum.

hann er með kringlótt gleraugu, svart hár bundið í bollu og subbulegt skegg.

 

ég reyni að vera fyndinn,

er þá ekki bara tilvalið að setja þær í pottinn?

 

afgreiðslumaður andvarpar,

jú en það tekur smá tíma. allavega tíu mínútur.

 

það er allt í lagi ég hef fullt af tíma -  get ég ekki bara stokkið heim og skilað sund dótinu mínu og komið svo til baka?

 

afgreiðslumaður svarar með öðru andvarpi,

…  jú ætli það ekki…

 

ég fer út úr rauðu hornbúðini, smá svekktur eiginlega. 

afhverju eru pulsurnar bara ekki í pottinum? 

 

á meðan að ég velti þessu fyrir mér geng ég fram hjá manni sem er með ljótasta sjóvá buff sem að ég hef séð. hann er líka með verðlaunapening sem gæti alveg eins verið úr hókus pókus. 

 

hann er allavega ekki einlægur. verðlaunapeningurinn það er að segja, ekki maðurinn.

hann, maðurinn, virðist alveg fínn en hann haltrar svolítið. kannski er þetta verðskuldaður verðlaunapeningur.

 

ég labba upp stigann heim en ég get ekki hugsað um neitt annað en afhverju pulsurnar voru ekki í pottinum til að byrja með. það er alveg pulsutraffík á kvöldin líka. ég hef oft farið inn í þessa búð um kvöld áður, beint eftir sund og séð fólk borða pulsur og bylsur og allt þar á milli. 

 

ég er ekkert lengi að hengja upp sundfötin og handklæðið þannig ég fæ mér meira að segja vatnsglas til að drepa tímann áður en ég fer aftur niður stigann.

 

fyrir utan búðina er yfirgefið skó par og við hliðin á þeim er stórt bjórglas nema að það er fullt af hvítum, þykkum vökva. 

 

ég næ ekki alveg að átta mig á því hvort þetta sé súrmjólk eða málning, en það er samt far eftir munnvik á glasbrúninni. 

 

ég kem aftur inn í sjoppuna og spyr; 

hver er staðan á þessum pulsum?

 

það voru greinilega vaktaskipti því það er kominn nýr starfsmaður. lágvaxinn, miðaldra kona með þétt tagl og mjög áberandi rauðar, hvassar gelneglur sem gætu örugglega blindað mig.

 

pulsunum? það þarf að setja þær í pottinn.

 

ég lyfti brúnum, hissa

 

ha? 

... 

okei

hvað tekur það langan tíma sirka?

 

afgreiðslukonan hugsar í smá en svarar

... svona þrjár mínútur kannski.

 

fyrir tólf mínútum voru það samt níu en ég kinka kolli, bíð inn í búðinni og skoða mig um.

 

það er eiginlega ekkert til boði. bara kattasandur. til hægri er bústinn maður í spilakassanum. hann blótar hratt á tungumáli sem ég skil ekkert sérstaklega vel en ég er viss um að hann er reiður út í það sama og ég. 

 

að pulsurnar séu ekki í pottinum.

 

konan við kassann afgreiðir feðga á meðan og týnir saman glerhart nammi frá 2016 ofan í tannkremsgrænan, alltof síðan plastpoka og svo vigtar hún hann. 

 

þeir eru ansi líkir í andlitinu. pabbinn er með koddalega ístru en sonur hans er hins vegar mjög grannur, kannski smá eins og njóli eða eitthvað. 

 

hann er líka hærri en pabbi sinn,

 

með þyrilsnældu sem að snýst og snýst.

 

þrjú kíló af hlaupi. 

 

þeir feðgarnir rölta út úr búðinni,

pabbinn heldur á nammipokanum og strákurinn heldur í taum sem er fastur við merkta ól á hund,

hundurinn gæti líka alveg verið rotta,

 

IMG_4926

 

það er erfitt að velja á milli.

 

afgreiðslukonan segir við mig að veðrið sé búið að vera svo slappt og hún voni að það breytist fyrir mánudaginn því að þá á hún afmæli og ætlar sér að grilla. 

 

grilla hvað? pulsur? ég spurði hana ekki að því en ég hefði kannski átt að gera það.

 

ég horfi á pulsupottinn og allan reykinn sem kemur úr honum. 

 

þetta er alveg að fara að gerast. 

 

afgreiðslukonan er byrjuð að undirbúa brauðið og laukinn.

 

á meðan spyr hún mig hvort ég hafi fundið fyrir jarðskjálftanum í dag og að hann hafi verið fimm komma fjórir.

 

ég hristi hausinn.

 

er það ekki svolítið mikið? hvernig varð ég ekkert var við þennan skjálfta?

 

hún tekur töngina og dregur blautu pulsurnar úr pottinum, hristir svo smá vatn af þeim áður en hún þjappar þeim í brauðið og spyr mig hvort ég hafi líka séð eldgosið,

 

ég held að hún sé að ljúga og segi einfaldlega nei,

 

hún kreistir allar sósurnar á pulsuna,

allar í réttri röð,

svo afhendir hún mér hana með skakkt bros á vör,

 

ég er alveg að fara að fá mér bita þegar að maðurinn við spilakassann slær fast í hann. 

 

allt klinkið hristist inn í vélinni. pulsurnar í pottinum hristast og meira að segja búðin hristist. 

 

afgreiðslukonan ætlar að skríða undir borð.

 

mér er alveg sama þótt þetta sé heimsendir eða ekki því þá dey ég allavega saddur og sæll og pulsurnar eru loksins komnar í pottinn.



IMG_5028


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ráðhildur Ólafsdóttir

Þetta finnst mér skemmtileg saga. Sérstaklega finnst mér njóli sem karakterlýsing skemmtileg! 

Ráðhildur Ólafsdóttir, 20.9.2023 kl. 19:46

2 Smámynd: Axel Gústavsson

Takk fyrir það Ráðhildur! Já, hann var mjög njólalegur.

Axel Gústavsson, 20.9.2023 kl. 20:36

3 Smámynd: Björgvin Þangbrandur

Hefur þú ekki séð eldgosið??? pylsurnar þyrfti ekki að vera lengi þar inni í því! laughing

Kveðja björgvin

Björgvin Þangbrandur "Birkirmár" Gíslasson, 21.9.2023 kl. 12:38

4 Smámynd: Axel Gústavsson

Sæll Björgvin,

Ég hef séð sum eldgos, en ekki öll. Hvað varðar pulsurnar þá er það örugglega rétt hjá þér! Gæti samt verið svoldið flókið að ná þeim upp úr jarðhræringunum.

Axel Gústavsson, 21.9.2023 kl. 16:18

5 Smámynd: Katla Björk Gunnarsdóttir

Nammi nammi namm! Nammi frá 2016. Það var mjög gott ár fyrir Haribo-uppskeruna alla vega. Geggjaður texti. Dularfull sjoppa, hljómar smá kunnuglega.....? 

En já töff. Var í smá blogg pásu en núna er ég í BA málstofu og ég er að nýta tímann þar til að blogga :)

Katla Björk Gunnarsdóttir, 22.9.2023 kl. 09:35

6 Smámynd: Axel Gústavsson

Kannski var það 2015 ég er ekki alveg viss.

Stundum þarf maður að hvíla bloggið aðeins, en gott að þú sért komin aftur! Sárt saknað!

Axel Gústavsson, 22.9.2023 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband