hindalundur
í súbarú legacy að borða hölk ís
matarlitað gums klessist við tennurnar mínar
og fyrr en ég veit er ég bara að naga pinnann
hann er samt furðulega góður líka
gummi snickers labbar tuskulegur út úr tíu ellefu í úlpu sem gæti verið úr fargó
á bakinu er gulur og blár poki merktur KÁ-A
hann heldur líka á tveimur mexíkóostum
vinir mínir kölluðu hann alltaf gumma snickers af því að einu sinni fundu þeir hann inn í búningsklefa að gráta og borða snickers á sama tíma, eftir að þeir skutu hann úr í asna
hann var líka alltaf fyrstur úr í gúmmí tarzan
sem var fínt því þá var ég næstfyrstur
ég spýti pinnanum út úr mér og hann límist við framrúðuna
sekk svo ofan í sætið til að þykjast ekki sjá hann
gummi byrjar að horfa í átt að bílnum mínum eða ekki bílnum mínum
heldur bílnum sem ég sit í
bílnum hennar mömmu
KLANK!
stál skellur og gler splundrast í mýmarga búta, nokkrum skrefum frá þannig að gummi horfir þangað í staðinn
ryðgaður jepplingur stendur hálfur, eða varla það, út um verslunina býflugan og blómið
gummi treður mexíkóostunum í vasana og hleypur upp að árekstrinum
eldri maður, bílstjórinn, stígur ringlaður út úr bifreiðinni með hendur á hausnum
hann lítur út fyrir að lykta eins og sex þúsund sígarettur og átta þúsund bjórar
en ómeiddur þannig séð
kannski aðallega í tómu andlegu tjóni
hann stendur á moldini og blómunum í bland við allt glerið
og nuddar svitann af fituga enninu sínu
gummi snickers spyr hann hvað hafi gerst
ég opna gluggann til að heyra svarið
bílstjórinn segir að hann hafi gleymt að setja í handbremsu og að bílinn hafi runnið af stað
áður en hann vissi var bílinn bara kominn inn í búðina
gamli ökumaðurinn hnoðast saman í skömmustulega kúlu þegar hann rifjar þetta allt saman upp
alla búðina? spyr gummi og bendir á litla jeppann inn í versluninni
gummi ásakar manninn um að hafa framið ómeðvitað innbrot, tekur svo einn mexíkóost úr vasanum og byrjar að borða hann hraustlega
ökumaðurinn stamar og fullyrðir að svo væri ekki og að hann hefði verið að versla vönd fyrir konuna sína
hann hallar sér aftur inn í jepplinginn og dregur út einhæfan blómvönd og hristir hann fyrir framan nefið á gumma snickers eins og hann sé að að sanna eitthvað fyrir honum
lögreglubíll og sjúkrabíll koma inn á bílastæðið
en ekki með ljósin á
ég fikta í takkanum á hurðinni og læt bílrúðuna stökkva upp og síga niður til skiptist
seinast þegar ég gerði þetta
var ég með puttann á milli.
Flokkur: Bloggar | 13.9.2023 | 17:08 (breytt 16.5.2024 kl. 12:28) | Facebook
Athugasemdir
Þvílíkur rússíbani. Myndirnar æðislegar
Elín Elísabet Einarsdóttir, 13.9.2023 kl. 18:44
Namm! Núna langar mig í mexíkóost
Katla Björk Gunnarsdóttir, 14.9.2023 kl. 08:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.