Færsluflokkur: Bloggar
ánamaðkanir teygjast á nóttunni
þegar að siggi fer út að týna
hann hoppar út í gúmmí-stígvélunum sínum
stundum lendir hann í poll ef hann er heppinn
hann segir að það sé best að fara á milli fjögur-og-fimm því þá eru þeir mest á iði,
maðkarnir
siggi vill líka vera á sífelldri hreyfingu
honum finnst eins og hann ná hámarks einbeitingu á nóttunni
þá veit hann að hann er ekki að missa af neinu mikilvægu
það er líka mjög mikilvægt að fara beint eftir rigningu
annað væri eiginlega bara heimskulegt
helst milda
þannig að þeir nenni uppúr moldini
siggi keypti sprota og spítu sem hann nuddar í jörðina
slær svo sprotanum í spítuna
til að kalla á þá
þeir troða sér upp úr blautu grasinu
siggi grípur einn glóðvolgann
skoðar hann með stækkunargleri
kinkar kolli og segir,
þetta er framtíðin,
fólk er að fara að borða þetta innan við tíu ár,
ég er að segja þér það.
sá seinasti sem að siggi nappaði var víst mjög margmæltur
með hendur og fætur
er það þá ormur?
Bloggar | 15.11.2023 | 01:10 (breytt kl. 01:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
hvað meinarðu?
afgreiðslumaðurinn er skýr,
ég meina það sem ég meina, pulsurnar eru ekki í pottinum.
hann er með kringlótt gleraugu, svart hár bundið í bollu og subbulegt skegg.
ég reyni að vera fyndinn,
er þá ekki bara tilvalið að setja þær í pottinn?
afgreiðslumaður andvarpar,
jú en það tekur smá tíma. allavega tíu mínútur.
það er allt í lagi ég hef fullt af tíma - get ég ekki bara stokkið heim og skilað sund dótinu mínu og komið svo til baka?
afgreiðslumaður svarar með öðru andvarpi,
jú ætli það ekki
ég fer út úr rauðu hornbúðini, smá svekktur eiginlega.
afhverju eru pulsurnar bara ekki í pottinum?
á meðan að ég velti þessu fyrir mér geng ég fram hjá manni sem er með ljótasta sjóvá buff sem að ég hef séð. hann er líka með verðlaunapening sem gæti alveg eins verið úr hókus pókus.
hann er allavega ekki einlægur. verðlaunapeningurinn það er að segja, ekki maðurinn.
hann, maðurinn, virðist alveg fínn en hann haltrar svolítið. kannski er þetta verðskuldaður verðlaunapeningur.
ég labba upp stigann heim en ég get ekki hugsað um neitt annað en afhverju pulsurnar voru ekki í pottinum til að byrja með. það er alveg pulsutraffík á kvöldin líka. ég hef oft farið inn í þessa búð um kvöld áður, beint eftir sund og séð fólk borða pulsur og bylsur og allt þar á milli.
ég er ekkert lengi að hengja upp sundfötin og handklæðið þannig ég fæ mér meira að segja vatnsglas til að drepa tímann áður en ég fer aftur niður stigann.
fyrir utan búðina er yfirgefið skó par og við hliðin á þeim er stórt bjórglas nema að það er fullt af hvítum, þykkum vökva.
ég næ ekki alveg að átta mig á því hvort þetta sé súrmjólk eða málning, en það er samt far eftir munnvik á glasbrúninni.
ég kem aftur inn í sjoppuna og spyr;
hver er staðan á þessum pulsum?
það voru greinilega vaktaskipti því það er kominn nýr starfsmaður. lágvaxinn, miðaldra kona með þétt tagl og mjög áberandi rauðar, hvassar gelneglur sem gætu örugglega blindað mig.
pulsunum? það þarf að setja þær í pottinn.
ég lyfti brúnum, hissa
ha?
...
okei
hvað tekur það langan tíma sirka?
afgreiðslukonan hugsar í smá en svarar
... svona þrjár mínútur kannski.
fyrir tólf mínútum voru það samt níu en ég kinka kolli, bíð inn í búðinni og skoða mig um.
það er eiginlega ekkert til boði. bara kattasandur. til hægri er bústinn maður í spilakassanum. hann blótar hratt á tungumáli sem ég skil ekkert sérstaklega vel en ég er viss um að hann er reiður út í það sama og ég.
að pulsurnar séu ekki í pottinum.
konan við kassann afgreiðir feðga á meðan og týnir saman glerhart nammi frá 2016 ofan í tannkremsgrænan, alltof síðan plastpoka og svo vigtar hún hann.
þeir eru ansi líkir í andlitinu. pabbinn er með koddalega ístru en sonur hans er hins vegar mjög grannur, kannski smá eins og njóli eða eitthvað.
hann er líka hærri en pabbi sinn,
með þyrilsnældu sem að snýst og snýst.
þrjú kíló af hlaupi.
þeir feðgarnir rölta út úr búðinni,
pabbinn heldur á nammipokanum og strákurinn heldur í taum sem er fastur við merkta ól á hund,
hundurinn gæti líka alveg verið rotta,
það er erfitt að velja á milli.
afgreiðslukonan segir við mig að veðrið sé búið að vera svo slappt og hún voni að það breytist fyrir mánudaginn því að þá á hún afmæli og ætlar sér að grilla.
grilla hvað? pulsur? ég spurði hana ekki að því en ég hefði kannski átt að gera það.
ég horfi á pulsupottinn og allan reykinn sem kemur úr honum.
þetta er alveg að fara að gerast.
afgreiðslukonan er byrjuð að undirbúa brauðið og laukinn.
á meðan spyr hún mig hvort ég hafi fundið fyrir jarðskjálftanum í dag og að hann hafi verið fimm komma fjórir.
ég hristi hausinn.
er það ekki svolítið mikið? hvernig varð ég ekkert var við þennan skjálfta?
hún tekur töngina og dregur blautu pulsurnar úr pottinum, hristir svo smá vatn af þeim áður en hún þjappar þeim í brauðið og spyr mig hvort ég hafi líka séð eldgosið,
ég held að hún sé að ljúga og segi einfaldlega nei,
hún kreistir allar sósurnar á pulsuna,
allar í réttri röð,
svo afhendir hún mér hana með skakkt bros á vör,
ég er alveg að fara að fá mér bita þegar að maðurinn við spilakassann slær fast í hann.
allt klinkið hristist inn í vélinni. pulsurnar í pottinum hristast og meira að segja búðin hristist.
afgreiðslukonan ætlar að skríða undir borð.
mér er alveg sama þótt þetta sé heimsendir eða ekki því þá dey ég allavega saddur og sæll og pulsurnar eru loksins komnar í pottinn.
Bloggar | 20.9.2023 | 17:21 (breytt 22.9.2023 kl. 10:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
helvíti er þegar manneskjan sem þú ert núna hittir manneskjuna sem þú hefðir geta orðið,
þú ert skuldbundin/n/ð sjálfum/sjálfri/sjálfu þér að leggja þig allan/alla/allt fram
í eitt ár, minnsta lagi hálft
hversu öflug getur þú orðið sem manneskja?
tíu sinnum meira?
þrjátíu...
hver veit?
eina
leiðin
til þess
að
komast
að því
er að gera allt sem þú gerir...
með fullum krafti og trompi
fjárfesta í sjálfum sér
fjárfestu í sambandinu þínu
fjárfestu í heilsuni þinni
fjárfestu í vinnuni þinni
og gerðu bara hluti sem þú veist
að munu auka þína möguleika í lífinu
og þjóna þínu mikilvæga hlutverki
í heiminum
áfram með smjörið
haldið áfram að skína
slípið hættir aldrei!
Bloggar | 15.9.2023 | 16:10 (breytt kl. 21:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
hindalundur
í súbarú legacy að borða hölk ís
matarlitað gums klessist við tennurnar mínar
og fyrr en ég veit er ég bara að naga pinnann
hann er samt furðulega góður líka
gummi snickers labbar tuskulegur út úr tíu ellefu í úlpu sem gæti verið úr fargó
á bakinu er gulur og blár poki merktur KÁ-A
hann heldur líka á tveimur mexíkóostum
vinir mínir kölluðu hann alltaf gumma snickers af því að einu sinni fundu þeir hann inn í búningsklefa að gráta og borða snickers á sama tíma, eftir að þeir skutu hann úr í asna
hann var líka alltaf fyrstur úr í gúmmí tarzan
sem var fínt því þá var ég næstfyrstur
ég spýti pinnanum út úr mér og hann límist við framrúðuna
sekk svo ofan í sætið til að þykjast ekki sjá hann
gummi byrjar að horfa í átt að bílnum mínum eða ekki bílnum mínum
heldur bílnum sem ég sit í
bílnum hennar mömmu
KLANK!
stál skellur og gler splundrast í mýmarga búta, nokkrum skrefum frá þannig að gummi horfir þangað í staðinn
ryðgaður jepplingur stendur hálfur, eða varla það, út um verslunina býflugan og blómið
gummi treður mexíkóostunum í vasana og hleypur upp að árekstrinum
eldri maður, bílstjórinn, stígur ringlaður út úr bifreiðinni með hendur á hausnum
hann lítur út fyrir að lykta eins og sex þúsund sígarettur og átta þúsund bjórar
en ómeiddur þannig séð
kannski aðallega í tómu andlegu tjóni
hann stendur á moldini og blómunum í bland við allt glerið
og nuddar svitann af fituga enninu sínu
gummi snickers spyr hann hvað hafi gerst
ég opna gluggann til að heyra svarið
bílstjórinn segir að hann hafi gleymt að setja í handbremsu og að bílinn hafi runnið af stað
áður en hann vissi var bílinn bara kominn inn í búðina
gamli ökumaðurinn hnoðast saman í skömmustulega kúlu þegar hann rifjar þetta allt saman upp
alla búðina? spyr gummi og bendir á litla jeppann inn í versluninni
gummi ásakar manninn um að hafa framið ómeðvitað innbrot, tekur svo einn mexíkóost úr vasanum og byrjar að borða hann hraustlega
ökumaðurinn stamar og fullyrðir að svo væri ekki og að hann hefði verið að versla vönd fyrir konuna sína
hann hallar sér aftur inn í jepplinginn og dregur út einhæfan blómvönd og hristir hann fyrir framan nefið á gumma snickers eins og hann sé að að sanna eitthvað fyrir honum
lögreglubíll og sjúkrabíll koma inn á bílastæðið
en ekki með ljósin á
ég fikta í takkanum á hurðinni og læt bílrúðuna stökkva upp og síga niður til skiptist
seinast þegar ég gerði þetta
var ég með puttann á milli.
Bloggar | 13.9.2023 | 17:08 (breytt 16.5.2024 kl. 12:28) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
ég fór í sund með pabba mínum
skil ekki tímann og vatnið
gamall krumpaður maður snýtir sér í heitan pott
fór ekki í sund í tíu ár.
Bloggar | 13.9.2023 | 16:46 (breytt kl. 16:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)